Túrbínan Vísindasafn Reykjavíkur

Markmið Túrbínan er

"Að kveikja neista í einu barni gæti leitt af sér eitthvað stórkostlegt fyrir íslenskt samfélag"
—Sævar Helgi Bragason, vísindamiðlari og stjörnusérfræðingur

Nýsköpun í formi óhefðbundinna kennsluaðferða í vísindamenntun er mikilvægur þáttur í vitundarvakningu ungs fólks um áskoranir samtímans. Sömuleiðis þarf að efla vísindalæsi á öllum skólastigum og meðal almennings. Þarna getur Túrbínan í Elliðaárdal átt ríkan þátt í verki.

Nýtt verða gagnvirk tæki og tól, námskeið, vinnusmiðjur, tilraunastofur, þrautir, námsleikir og margt fleira. Rík tenging við náttúruna og umhverfið í Elliðaárdal og verður dalurinn í raun ein allsherjar lifandi tilraunastofa og náttúruskóli fyrir gesti Túrbínunnar og þá sem þar starfa.

Túrbínan mun gegna lykilhlutverki í Toppstöðinni og vera nýr segull í borginni fyrir bæði borgarbúa og ferðamenn. Þangað koma ungir sem aldnir til að læra og leika sér, fá innblástur, víkka sjóndeildarhringinn og öðlast innsýn í fegurð vísindanna.

Við sjáum fyrir okkur vísindasýningu á heimsmælikvarða þar sem gestir verða þátttakendur í víðtækum skilningi og nýjasta tækni er notuð til að miðla fræðslu og þekkingu. Lögð verður áhersla á skapandi þekkingarleit, þverfaglega nálgun og vísindamiðlun með listrænu ívafi.

Túrbínan mun byggja á reynslu og starfi Vísindasmiðju Háskóla Íslands sem starfað hefur í Háskólabíói síðan 2012. Markmið Vísindasmiðjunnar er efla áhuga ungmenna á vísindum og fræðum með gagnvirkum og lifandi hætti. Smiðjan er löngu orðin mikilvægur þáttur í kennslu náttúru- og raunvísinda á Íslandi og hefur verið nánast fullbókað frá fyrsta degi.

Túrbínan mun gefa Vísindasmiðjunni nýja, glæsilega og vandaða umgjörð og útvíkka hlutverk hennar þannig að hún verður enn betur í stakk búin til að styðja við kennslu í náttúru- og raunvísindum en verður ekki síður aðdráttarafl fyrir ferðafólk og fjölskyldur í leit að skemmtun og afþreyingu.

Vísindasetur í nútímasamfélagi

"Fróðleiksþorstinn sem íslenskir krakkar búa yfir er óslökkvandi. Það að ekki sé nú þegar til margra ára gamalt íslenskt vísindasafn er í raun ótrúlegt og það er hagur allra landsmanna að stuðla að stofnun slíkrar stofnunar"
—Ævar vísindamaður

Síðastliðna áratugi hafa lönd um allan heim leitað nýrra leiða til þess að efla vísinda-, og tæknimenntun þjóða sinna og þar hefur óformleg þekkingaröflun, utan hefðbundins skólanáms, gegnt sífellt stærra hlutverki. Má þar helst nefna gagnvirk vísindasöfn, vísindahátíðir og aukið samstarf vísinda- og listamanna.

Rík áhersla hefur verið lögð á að brúa bilið á milli vísinda og samfélagsins, opna samtal þar á milli og finna nýjar leiðir til þess að miðla og upplýsa. Þetta er ekki síst mikilvægt á okkar tímum þegar mikil þörf er á að finna skapandi lausnir á brýnum hnattrænum áskorunum, svo sem og loftslagsbreytingum, nýtingu auðlinda, gróður- og jarðvegseyðingu og hvers konar lýðheilsumálum. Þessi umfangsmiklu og flóknu vandamál krefjast þess að ólíkar greinar þjóðlífsins taki höndum saman við vísinda- og tæknigeirann við leit á lausnum.

Vísindasöfn

Framlag vísindasafna til samfélagsins:

Heimsóknir í vísindasöfn eru talin

Vísindasöfn leggja sinn skerf til menntunar samfélagsins, uppbyggingar og þróunar.

Sýningin

Á gagnvirkum vísindasöfnum er gengið út frá því að einstaklingar læri á mismunandi vegu, meðal annars gegnum skynfæri, tilfinningar, upplifun og sköpun. Með leikjum, áskorunum, óvæntum uppgötvunum og skapandi lausnum verður til ný þekking, oft ómeðvitað en engu að síður minnisstæð. Óformleg fræðsla safnsins er hugsuð sem viðbót og dýpkun á þeirri þekkingu og reynslu sem gestir búa þegar að, eða eiga eftir að öðlast, til dæmis í formlegu námi. Vísindasöfn styðja því við nám á öllum skólastigum og geta aukið við þekkingu allra aldurshópa sem þangað sækja.

⅓-⅓-⅓

Sýningu Túrbínunnar verður skipt upp í þrjá hluta. 1⁄3 hluti verður föst sýning, 1⁄3 hluti verður tímabundin sýning sem er sett upp ákveðinn tíma á ári og 1⁄3 er leigð sýning erlendis frá.

Tilraunir, uppákomur og vinnustofur

Starfsemi Túrbínunnar mun einkennast af lifandi vinnustofum, tilraunum og uppákomum sem gestir geta tekið virkan þátt í.

Sjá, skoða, skilja, skapa

Markmiðið er að setja upp sýningu sem auk þess að miðla vísindum á skýran hátt, kallar einnig fram viðbrögð hjá gestum, fær þá til að spyrja sig spurninga og veitir þeim innblástur - heimsókn á sýninguna verður uppspretta nýrra verkefna, tilrauna og viðfangsefna.

Leiðarljós vísindasafnsins er að heillandi heimurinn allt í kringum okkur öðlast enn meira gildi, víðáttu og fegurð þegar við fáum færni og hæfni til þess að lesa úr því sem býr að baki. Læsi á umhverfið eflir gagnrýna, skapandi og lausnamiðaða hugsun, nokkuð það mikilvægasta sem við getum gefið kynslóðum framtíðarinnar.

Gagnvirkni og áþreifanleiki

Við beitum nýjustu tækni í vísindamiðlun í bland við hefðbundna sýningatækni þar sem leiðarstefin eru áreiðanleiki, spánýjar upplýsingar og skemmtan.

Með því að gera viðmótin áþreifanleg verða gestirnir þátttakendur í sýningarmiðluninni sem hefur mjög jákvæð áhrif á upplifun þeirra því þeir “skynja” upplýsingar á nýjan hátt. Gestir taka á raunverulegum hlutum, hreyfa þá, breyta og/eða bæta og öðlast um leið nýja þekkingu með aðgerðum sínum. Stuðlað er að samskiptum gesta með fjölnotastöðvum (Multi-user) og sem þeir ýmist vinna í samstarfi eða samkeppni. Margmiðlun verður sniðin að þörfum ólíkra markhópa sem verða á öllum aldri og tala ólík tungumál.

Söguþráður og dramatúrgía

Fundin verða grunnstef sem setja tóninn fyrir söguþráð og dramatúrgíu sýningarinnar. Þetta grunnstef getur verið þema, spurning eða tilfinning. Hjá Vísindasmiðju Háskólans hefur verið unnið útfrá einfaldleikanum og leitinni að fegurðinni í því að skilja heiminn betur. ‘Ekki er allt sem sýnist’ og þegar betur er að gáð opnast heill töfraheimur sem má skoða bæði í gegnum augu og tól vísinda og lista.

Þemu

Þemu og frásagnarleið sýningarinnar verða unnin af sérfræðingum og aðstandendum núverandi Vísindasmiðju í samstarfi við sýningahönnuði. Fjallað verður um þætti innan eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði, stjörnufræði, umhverfis og náttúrufræði, einnig forritun og stærðfræði. Lögð verður áhersla á tengsl þessara þátta við hljóðfæri og listir. Leitast verður við að miðla spánýjum rannsóknum á dýnamískan og nýstárlega hátt til þess að tengja sýninguna við það sem er ofarlega á baugi vísindasamfélagi líðandi stundar. Sögunni verða gerð skil og tenging við orkuframleiðslu, húsnæðið sjálft og svæðið í kring.

Gestirnir

Vísindasafnið er hugsað fyrir skólahópa, fjölskyldufólk og fróðleiksfúsa ferðamenn af öllum toga, óháð aldri, kyni og þjóðerni.

Við sjáum fyrir okkur að Túrbínan verði einnig viðkomustaður listamanna, vísindafólks, frumkvöðla og framtíðarspekúlanta þar sem uppákomur og viðburðir munu gera staðinn að suðupotti hugmyndaauðgis og gagnrýninnar hugsunar. Safnið mun leggja áherslu á virkt samstarf við öll skólastig og menntayfirvöld í uppbyggingu starfseminnar, þróun dagskrár og gerð sýningarverkefna. Einnig verður leitað til starfandi vísinda- og fræðimanna, menningarstofnana, listamanna og atvinnulífs.

Skrá mig á lista stuðningsmanna Túrbínunnar